RÁÐGJÖF
OG STUÐNINGUR
Sema Erla hefur um árabil unnið að forvörnum og inngripi í samskiptavanda, einelti, fordóma, hatursorðræðu, ofbeldi og aðra óæskilega hegðun á meðal barna og ungmenna, á vettvangi skóla og frístundastarfs, íþrótta- og tómstunda og annars staðar þar sem hópar koma saman.
Í slíkri vinnu leggur Sema Erla áherslu á aðferðir fyrir börn og ungmenni, starfsfólk og sjálfboðaliða, forsjáraðila og aðra viðeigandi aðila með það að markmiði að stuðla að vellíðan og farsæld allra. Einnig er lögð áhersla á hlutlausa ráðgjöf og vinnu með einstaklingum, sem geta verið mögulegir þolendur, gerendur, áhorfendur og aðstandendur, sem og hópnum í heild sinni og starfsfólki, allt eftir því hvað á við hverju sinni.
Slík vinna getur einnig falið í sér námskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða, vinnustofur, kannanir, stefnumótun, þróun á áætlunum og verkferlum, stefnum og siðareglum og þjálfun í aðferðum og notkun á verkfærum.
Í allri sinni vinnu leggur Sema Erla áherslu á nýjustu rannsóknir, kenningar og gagnreyndar aðferðir.
forvarnir og inngrip
INNGILDANDI LEIÐTOGAFÆRNI OG JÁKVÆÐ MENNING
Að byggja upp inngildandi starfsemi og jákvæða menningu með börnum og ungmennum gerist ekki á einni nóttu. Um er að ræða ferli sem leiðtogar þurfa að skuldbinda sig til þess að taka virkan þátt í til lengri tíma. Það þarf að vinna markvisst að því að búa til inngildandi starfsemi þar sem öll eru virkir þátttakendur, fá tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku og upplifa að þau tilheyra. Það á jafnt við um starfsfólk, sjálfboðaliða og þátttakendur.
Í inngildandi umhverfi eiga öll að njóta sömu virðingar, upplifa öryggi og hlutdeild. Í slíku umhverfi er lögð áhersla á jákvæða menningu þar sem fordómar, mismunun, áreiti og ofbeldi er ekki liðið og brugðist er við þegar upp koma slíkt atvik.
Inngildandi leiðtogafærni býr innra með öllum og öll geta verið inngildandi leiðtogar. Það er mikilvægt að leiðtogar í starfi með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð og tileinki sér inngildandi aðferðir og verkfæri til þess að byggja upp umhverfi sem er laust við mismunun og ofbeldi og öll hafa sömu tækifæri.
Sema Erla býður upp á námskeið og vinnustofur fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum með fjölbreyttan bakgrunn og vilja tileinka sér inngildandi leiðtogafærni og vinna að inngildandi umhverfi þar sem ríkir jákvæð menning fyrir starfsfólk, sjálboðaliða, foreldra og forsjáraðila, börn og ungmenni.
Ávallt er stuðst við nýjustu rannsóknir, kenningar og gagnreyndar aðferðir. Þar að auki er stuðst við inngildandi aðferðir og verkfæri sem Sema Erla þróaði fyrir skipulagt starf með börnum og ungmennum sem og persónulega reynslu.
Samskiptavandi og einelti barna og ungmenna
Sema Erla hefur um árabil unnið að forvörnum og inngripi í samskiptavanda, einelti, ofbeldi og aðra óæskilega hegðun á meðal barna og ungmenna, á vettvangi skóla og frístundastarfs, íþrótta- og tómstunda og annars staðar þar sem hópar koma saman.
Í forvarnarvinnu leggur Sema Erla áherslu á fyrirbyggjandi aðferðir fyrir börn og ungmenni, starfsfólk, forsjáraðila og aðra viðeigandi aðila. Slíkar aðferðir geta falið í sér fræðslu, einstaklings- og hópavinnu, félagsfærni- og vináttuþjálfun, þróun eineltisáætlana, innleiðingu verkferla og viðbragðsáætlunar, þróun samskiptasáttmála, siðareglna og aðrar viðeigandi aðgerðir.
Í inngripi í samskiptavanda, einelti eða aðra óæskilega hegðun er lögð áhersla á óháða og hlutlausa ráðgjöf og aðstoð við vinnu með mögulegum þolendum, gerendum, áhorfendum og aðstandendum, sem og hópnum í heild sinni og starfsfólki, allt eftir því hvað á við hverju sinni. Hvert inngrip í samskiptavanda og einelti er einstakt og mótað eftir þörf hverju sinni en inngrip er ávallt unnið samkvæmt gagnreyndum aðferðum, rökstutt af rannsóknum og með það að markmiði að stuðla að farsæld allra sem eiga aðild að máli. Í slíkri vinnu er lögð áhersla á faglega úrlausn svo öll geti gengið frá borði með reisn.
FORDÓMAR, HATURSORÐRÆÐA OG ÖFGAHYGGJA
Sema Erla hefur um árabil unnið að forvörnum og inngripi í samskiptavanda, áreiti, ofbeldi og einelti, sem meðal annars einkennist af kynþátta- og menningarfordómum, hatursorðræðu og ofbeldisfullri öfgahyggju á meðal barna og ungmenna, á vettvangi skóla og frístundastarfs, íþrótta- og tómstundastarfs og annars staðar þar sem hópar koma saman.
Öll börn og ungmenni eiga rétt á því að taka þátt í skóla og frístundastarfi, íþrótta- og tómstundastarfi og öðru skipulögðu starfi án þess að vera mismunað vegna uppruna, þjóðernis, kynþáttar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra mismununarþátta. Öll börn og ungmenni eiga sama rétt á því að taka virkan þátt og upplifa öryggi, virðingu og hlutdeild.
Það er á ábyrgð starfsfólks, sjálfboðaliða og annarra leiðtoga að stuðla að inngildandi umhverfi þar sem þar sem allir eru virkir þátttakendur, fjölbreyttur hópur fólks tekur þátt í ákvarðanatöku og fordómar, hatursorðræða og önnur mismunun er ekki liðin.
Í forvarnarvinnu leggur Sema Erla áherslu á fyrirbyggjandi aðferðir fyrir börn og ungmenni, starfsfólk, sjálfboðaliða, forsjáraðila og aðra viðeigandi aðila. Slíkar aðferðir geta falið í sér fræðslu og námskeið, þjálfun í inngildandi leiðtogafærni, stefnumótunarvinnu fyrir inngildingu, þróun og innleiðingu stefnu og verkferla sem snúa að viðbrögðum við fordómum og hatri.
Í inngripi í atvik eða áföll og jafnvel ríkjandi menningu þar sem fordómar, mismunun og/eða hatursorðræða og öfgahyggja er til staðar er lögð áhersla á óháða og hlutlausa ráðgjöf og aðstoð við vinnu með mögulegum þolendum, gerendum, áhorfendum og aðstandendum, hópnum í heild sinni sem og starfsfólki, foreldrum og forsjáraðilum, allt eftir því hvað á við hverju sinni. Í slíkri vinnu er lögð áhersla á faglega úrlausn svo öll geti gengið frá borði með reisn.
Sema Erla hefur þróað sérstök verkfæri sem aðstoða hópa við að koma í veg fyrir og grípa inn í menningu sem einkennist af fordómum og mismunun og bregðast við fordómum, hatursorðræðu og öfgum og hún byggir vinnu sína að hluta til á þeim. Hvert inngrip í slík atvik eða slíka menningu er þó einstakt og mótað eftir þörf hverju sinni. Inngrip er ávallt unnið samkvæmt gagnreyndum aðferðum, rökstutt af rannsóknum og með það að markmiði að stuðla að farsæld allra sem eiga aðild að máli og lögð er áhersla á að öll sem eiga aðild að máli fái viðeigandi aðstoð.