top of page
Random Objects_edited_edited.jpg
HATURSORÐRÆÐA OG ÖFGAHYGGJA

HATURSORÐRÆÐA

Hatursorðræða er ekki nýtt fyrirbæri og í flestum samfélögum má finna einhverja af mörgum birtingarmyndum hatursorðræðu í einhverju mæli. Hatursorðræða er samfélagsmein sem getur haft alvarlegar afleiðingar ef hún er látin óáreitt. Hún er notuð til þess að niðurlægja einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður. Í hvert skipti sem hatursorðræða er látin óáreitt kostar hún einhvern hluta af þeim sjálfum, sjálfsmynd þeirra og hluta af sálarlífi þeirra.

Rannsóknir benda til þess að hatursorðræða fari vaxandi og að hatursglæpum fjölgi. Nýlegar rannsóknir benda til þess að börn og ungmenni séu sérstaklega berskjölduð gagnvart hatursorðræðu og þá sérstaklega hatursorðræðu á netinu. Margt bendir til þess að hatursorðræða sé orðinn hluti af orðræðu barna og ungmenna og daglegu lífi þeirra.

Vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem hatursorðræða getur haft á einstaklinga, hópa og samfélagið í heild sinni er mikilvægt að sporna gegn því að börn og ungmenni tileinki sér slíka hegðun og vita hvernig á að bregðast hatursorðræðu.

Á meðal þeirra spurninga sem velt er upp eru:

  • Hvað er hatursorðræða?

  • Hvað eru hatursglæpir?

  • Hverjar eru birtingarmyndir hatursorðræðu?

  • Hverjar eru afleiðingar hatursorðræðu?

  • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir hatursorðræðu á meðal barna og ungmenna?

  • Hvernig á ég að bregðast við hatursorðræðu?

FYRIR HVERJA ER námskeiðið?

Starfsfólk og stjórnendur í skóla og frístundastarfi, íþrótta- og tómstundastarfi og aðra sem starfa með börnum og ungmennum. Börn, ungmenni, foreldra/forsjáraðila og aðra áhugasama. Námskeiðin eru ávallt sérsniðin að hverjum hópi.

Á námskeiðinu er ávallt stuðst við nýjustu rannsóknir, kenningar og gagnreyndar aðferðir. Á þessu námskeiði er einnig tengt við persónulega reynslu af hatursorðræðu og hatursglæpum.

Athugið að hægt er að fá námskeið sem fjallar um hatursorðræðu í víðu samhengi eða námskeiðið sem fjallar sérstaklega um börn og ungmenni í því samhengi.

HATURSORÐRÆÐA

OFBELDISFULL ÖFGAHYGGJA OG UNGT FÓLK

Öfgahyggja (e. extremism) er áhyggjuefni um allan heim og að sumra mati ein helsta ógnin við öryggi, stöðugleika og velmegun þjóðríkja og alþjóðasamfélagsins. Er það fyrst og fremst vegna tengsla öfgahyggju við ofbeldi og vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem öfgahyggja getur haft á einstaklinga, hópa fólks og samfélagið í heild sinni.

Á síðustu árum hefur öfgahyggja farið vaxandi víða um heim og rannsóknir benda til þess að ungt fólk í Evrópu sé í auknum mæli að tileinka sér ofbeldisfulla öfgahyggju (e. violent extremism) og ganga til liðs við ofbeldis- og öfgahópa. Vegna þessarar þróunar er ungt fólk og unglingsárin í dag skilgreind sem sérstakur áhættuhópur fyrir ofbeldisfulla öfgahyggju.

Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á forvarnir gegn ofbeldisfullri öfgahyggju á meðal ungs fólks og veita starfsfólki og sjálfboðaliðum nauðsynlega fræðslu og þjálfun svo þeir geti gripið inn í með viðeigandi hætti þegar vísbendingar eru til staðar um að ungt fólk aðhyllist öfgahyggju og hafi jafnvel gengið til liðs við ofbeldis- og öfgahópa.

Á meðal þeirra spurninga sem velt er upp eru:

  • Hvað er ofbeldisfull öfgahyggja?

  • Hverjir aðhyllast ofbeldisfulla öfgahyggju?

  • Hvers vegna gengur ungt fólk til liðs við ofbeldis- og öfgahópa?

  • Hvaða þættir geta ýtt undir ofbeldisfulla öfgahyggju?

  • Hvaða forvarnir virka gegn ofbeldisfullri öfgahyggju?

  • Hvernig á að grípa inn í ofbeldisfulla öfgahyggju á meðal ungs fólks?

FYRIR HVERJA ER námskeiðið?

Starfsfólk og stjórnendur í skóla og frístundastarfi, íþrótta- og tómstundastarfi og aðra sem starfa með börnum og ungmennum. Börn, ungmenni, foreldra/forsjáraðila og aðra áhugasama. Námskeiðin eru ávallt sérsniðin að hverjum hópi.

Á námskeiðinu er ávallt stuðst við nýjustu rannsóknir, kenningar og gagnreyndar aðferðir. 

OFBELDISFULL ÖFGAHYGGJA OG UNGT FÓLK
bottom of page